Fiskbúðin á Sundlaugaveginum er stundum með fersk skötubörð til sölu og nær alltaf með þau til frosin. Við í Salt Eldhúsi erum alveg vitlaus í þetta lostæti matreitt með brúnuðu smjöri. Skötubörðin eru oftast frekar lítil þannig að reikna má með 2-3 börðum á mann.
Fyrir 2
4-6 skötubörð
2 msk. olía
6-8 msk. smjör
safi af 1 sítrónu
3 msk. kapers
hnefafylli af steinselju, söxuð
Hitið ofninn í 180°C. Hitið góða pönnu (fiskurinn á hættu á að festast við botntinn þannig að góð “non stick” panna er málið) og setjið olíuna og 2 msk. af smjöri á pönnuna. Steikið skötubörðin á báðum hliðum í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Gerið þetta í tvenni lagi svo fiskurinn brúnist vel. Setjið hann í ofnskúffu eða fat og inn í ofn smástund á meðan þið brúnið smjörið. Bræðið það sem eftir er af smjörinu í 3-4 mínútur og látið það brúnast vel og dásamlegur hnetuilmur kemur af pönnunni. Bætið sítrónusafa, kapers og steinselju í smjörið, blandið því saman og hellið síðan yfir skötubörðin. Berið fram með soðnum kartöflum.